Það sem af er degi hefur gengi Bitcoin hækkað um 4,5% og kostar nú ríflega 16.600 Bandaríkjadali, andvirði tæplega 2,3 milljónir króna. Gengi Bitcoin hefur verið í miklum hækkunarfasa en fyrir mánuði síðan var gengið í um 11.300 dollurum og hefur hækkað um tæplega helming á téðu tímabili.

Í upphafi árs stóð Bitcoin í um 7.200 dollurum og hefur því hækkað um 130% það sem af er ári. Þrátt fyrir mikla hækkun lækkaði gengi rafmyntarinnar talsvert í marsmánuði á þessu ári þegar hlutabréfamarkaðir tóku að falla sökum kórónuveirunnar. Á um sólarhring lækkaði gengi Bitcoin um rúmlega þriðjung í mars þegar gengið fór niður fyrir fimm þúsund dollara.

Síðla árs 2017 náði gengi Bitcoin sögulegu hámarki í tæplega tuttugu þúsund dollurum. Virði gjaldmiðilsins tók að lækka skarpt og í mars 2018 var gengið komið niður fyrir sjö þúsund dollara og í rúmlega þrjú þúsund dollara síðla árs 2018.

Markaðsverð Bitcoin er rúmlega 300 milljarðar dollara, andvirði 41 þúsund milljarða króna. Gengi rafmyntarinnar stóð í um 250 dollurum í upphafi árs 2015 og hefur rúmlega 65 faldast frá þeim tíma, miðað við núverandi gengi.