Gengi hlutabréfa í færeyska bankanum BankNordik féll um 2,86% í Kauphöllinni í dag og endaði það í 68 dönskum krónum á hlut. Ekki eru mikil velta á bak við viðskiptin, 18.360 danskar krónur, jafnvirði tæpar 370 þúsund íslenskar. Til að gefa einhverja mynd af þróun hlutabréfaverðs BankNordik þá stóð gengi bréfa bankans í 240 dönskum krónum á hlut þegar þau voru skráð á markað í júlí árið 2007. Það hefur samkvæmt því hrunið um 71% á þessum fimm árum.

Á sama tíma og gengi bréfa BankNordik féll lækkaði gengi bréf Icelandair Group um 1,75% og Marel um 0,36%.

Gengi hlutabréfa Haga hækkaði hins vegar um 0,55%.

Önnur breyting varð ekki á hlutabréfamarkaði.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,21% í dag og endaði hún í 995,77 stigum. Vísitalan hefur ekki átt góða daga í ágúst en hún fór um mánaðamótin undir 1.000 stigin og hefur hún ekki verið lægri síðan um miðjan mars.