Breska fasteignalánafyrirtækið Alliance & Leicester (A&L) segist ekki hafa leitað til Englandsbanka um fjárhagsaðstoð og hafi engin áform uppi um slíkt. Ummæli fyrirtækisins koma í kjölfar þess að gengi bréfa í félaginu féllu um 31% í gær - en stærstur hluti þeirrar lækkunar átti sér stað þegar aðeins 20 mínútur voru þangað til markaðir lokuðu. Hlutabréf félagsins stóðu í 600 pensum á hlut og höfðu lækkað úr 873 pensum.

A&L sagðist ekki sjá neina rökrétta ástæðu fyrir hinum miklu lækkunum. Þvert á móti hafi endurfjármögnun bankans að undanförnu gengið vel. Sérfræðingar segja að ólíkt fasteignalánafyrirtækinu Northern Rock - en gengi bréfa í félaginu féll um 35% í gær - sé ekki hægt að rekja lækkun A&L til þess að viðskiptavinir bankans hafi leyst út stórar innlánsupphæðir. Gengi hlutabréfa í Bradford & Bingley, annað fasteignalánafyrirtæki, lækkaði jafnframt um 15% í gær, sökum ótta fjárfesta um að líkt og Northern Rock glími bankinn við lausafjárskort.