Gengi hlutabréfa danska skipafélagsins AP Møller-Maersk féllu um 8% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í dag eftir að kínversk samkeppnisyfirvöld komu í veg fyrir samvinnu Maersk við tvö önnur stór skipafélög, Mediterranean Shipping Company og CMA CGM. Hefur gengi bréfanna ekki fallið svo hratt í tvö ár.

Markmiðið var að samnýta skip á leiðunum milli Asíu og Evrópu, Evrópu og Ameríku og Asíu og Ameríku og draga úr offramboði á farmrými, sem komið hefur niður á skipafélögunum.

Kínversk yfirvöld sögðu að samanlagt hefðu félögin þrjú um 47% markaðshlutdeild á siglingum milli Asíu og Evrópu og að samvinnan myndi draga úr samkeppni.