*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 3. júní 2014 18:58

Gengi bréfa Apple hækkar með nýjungum

Fjárfestar hafa fram til þessa tekið þokkalega vel í nýjungar úr smiðju Apple.

Ritstjórn

Gengi hlutabréfa bandaríska tæknirisans Apple hefur hækkað um tæp 1,3% í dag.  Í gær kynntu Tim Cook, forstjóri Apple, og aðrir lykilstjórnendur fyrirtækisins ýmsar nýjungar úr smiðju Apple. Þar á meðal er næsta kynslóð stýrikerfis Apple fyrir þráðlaus tæki á borð við snjallsíma og spjaldtölvur en eins fyrir borð- og fartölvur. Þessar nýjungar eru væntanlegar með haustinu.

Á meðal helstu nýjunganna er uppfærslan Yosemite og IOS 8. Tvö forrit vöktu mestu athyglina. Það voru forritin HealthKit og HomeKit. Með Healthkit verður ýmsum heilsufarsupplýsingum um notandann safnað, í tengslum við hreyfingu, hjartslátt og svefn. Einnig verður auðvelt að tengja saman önnur heilsufarsforrit við Healthkit. Homekit gerir notendum hins vegar kleift að stjórna ýmsum tækjum heimilisins. Þannig verður hægt að dimma ljósin, læsa dyrum eða stjórna hitastiginu með Apple tækjunum. 

Gengi hlutabréfa Apple stendur nú í 636,5 dölum á hlut. Það hefur hækkað um 13,4% frá áramótum.

Stikkorð: Apple Tim Cook