Gengi hlutabréfa bandaríska tækniframleiðandans Apple féll um 12,35% á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Það tók að síga hratt eftir að fyrirtækið birti í gærkvöldi uppgjör sem stóð ekki væntingum markaðsaðila og var lítið lát þar á. Í uppgjörinu kom m.a. fram að dregið hefur úr eftirspurn iPhone-síma auk þess sem álagning Apple á vörum hefur lækkað. Í kjölfarið endurskoðuðu greinendur verðmat sitt á fyrirtækinu.

Gengi hlutabréfa Apple stóð við lokun markaða vestanhafs í kvöld í 450,5 dölum á hlut og hefur það ekki verið lægra í tæpt ár eða síðan í febrúar í fyrra. Gengi hélt áfram að lækka eftir lok markaða, lækkaði um 0,32% og fór undir 450 dali á hlut.

Virði hlutabréfa Apple náði himinhæðum í september í fyrra þegar það fór í 705 dali á hlut. Síðan þá hefur það hrunið um 37%. Vb.is greindi frá því fyrr í dag að markaðsverðmæti Apple sem hefur gufað upp á þessum tíma jafngildi einni landsframleiðslu Finna.

Hvernig er þetta í krónum talið?

Ef gengisþróun hlutabréfa Apple er til gamans sett í íslenskt samhengi þá kostaði eitt hlutabréf Apple 66.000 krónur við lokun markaða í gær. Nú er bréfið komið niður í 57.000 krónur. Í kringum 9.000 krónur hafa því gufað upp af verðmæti bréfsins. Til samanburðar kostaði þetta sama hlutabréf 90.000 krónur þegar það náði hæsta punkti í fyrra (þ.e.a.s. miðað er við gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu í dag og ef ekki tekið tillit til gengissveiflna). Síðan þá hafa 33.000 krónur horfið út í veður og vind.