Gengi hlutabréfa bandaríska tæknifyrirtækisins Apple féll um 5,5% á hlutabréfamarkaði vestanhafs í gær eftir að Cirrus Logic, sem framleiðir íhluti í iPad-spjaldtölvur Apple og iPhone-síma fyrirtækisins sagðist búast við að afkoma þess verði líklega undir væntingum þar sem rekstrarkostnaður hafi hækkað. Cirrus Logic á mikið undir velgengni Apple en gæti þurft að færa niður virði vörubirgða þar sem eftirspurn eftir iPhone 5-símum hafi reynst minni en búist var við.

Gengi hlutabréfa Apple fór tímabundið undir 400 dali á hlut í gær og hafði þá ekki verið lægra í heilt ár. Það endaði hins vegar í 402,8 dölum. Gengi bréfa Apple fór hæst í 750 dali á hlut í október í fyrra og hefur það fallið um rúm 40% síðan þá.