Gengi hlutabréfa Apple hélt áfram að falla í gær og fór í lok dags undir 400 dali á hlut. Gengisfallið í gær nam 2,67% og bættist það við 5,5% gengisfall á miðvikudag. Gengi hlutabréfa Apple stendur nú í 392 dölum á hlut. Það hefur ekki verið lægra síðan í desember árið 2011. Fjárfestar sem eiga hlutabréf í Apple hafa horft upp á 48% fjárfestingar sinnar gufa upp síðan í október í fyrra.

Gengi hlutabréf Apple stóð í 750 dölum á hlut í október í fyrra og hafði það þá aldrei verið hærra.

Eins og vb.is sagði frá í gær skýrist lækkun á gengi hlutabréfa Apple í vikunni af því að Cirrus Logic, sem framleiðir íhluti í iPad-spjaldtölvur Apple og iPhone-síma fyrirtækisins, gæti þurft að færa niður virði vörubirgða sinna þar sem eftirspurn eftir iPhone 5-símum hafi reynst minni en búist var við.

Hér má skoða nánar þróunina á gengi bréfa Apple.