Gengi bréfa flutningafyrirtækisins Fedex hefur lækkað um 23% í viðskiptum dagsins eftir að félagið tilkynnti að fjöldi flutninga hefði dregist verulega saman á undanförnum vikum. Þetta kemur fram í grein hjáWall Street Journal.

Gengið stendur nú í 158 dölum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í júlí árið 2020. Félagið, sem birtir árshlutauppgjör í næstu viku, segir í yfirlýsingu að efnahagshorfur bæði í Bandaríkjunum og á alþjóðlegum mörkuðum séu afar dökkar. Félagið hafi sett á ráðningarbann, lokað útibúum og dregið úr umsvifum á sunnudögum á einhverjum mörkuðum.

Raj Subramaniam, sem hefur gegnt stöðu forstjóra félagsins frá því í júní á þessu ári, sagði á CNBC í gær að hann búist við samdrætti í heimshagkerfinu á næstu misserum.