Breska tískuvörufyrirtækið French Connection sendi frá sér afkomuviðvörun til Kauphallarinnar í London og í kjölfarið lækkaði gengi bréfa félagsins um 5% í morgun.

Baugur Group hefur jafnt og þétt aukið eignarhlut sinn í félaginu, sem hefur leitt til væntinga um að Baugur reyni að taka yfir French Connection. Baugur á um 14% hlut í French Connection.

Í tilkynningu segir að hagnaður félagsins fyrir skatta verði á bilinu 11-14 milljónir punda á árinu, en gert var ráð fyrir 20 milljón punda hagnaði fyrir skatta. Um hádegisbilið í dag hafði gengi bréfa French Connection lækkað um 15 pens í 260 pens á hlut. Miðað við það gengi er markaðsvirði félagsins 248 milljónir punda.

French Connection segir að ástæða afkomuviðvörunarinnar sé erfitt rekstrarumhverfi í Bretlandi og samdráttur í smásölu. Sérfræðingar hafa bent á að FCUK-merki fyrirtækisins sé orðið þreytt og að þörf sé á breytingum.

Stofnandi French Connection, Stephen Marks, á 42% hlut í félaginu og talið er að Baugi reynist erfitt að taka yfir félagið án samþykkis hans.