Gengi hlutabréfa Haga hækkaði um 0,88% í viðskiptum upp á 10,3 milljónir króna á markaði í dag og endaði gengi bréfanna í 17,15 krónum á hlut. Miðað við lokagengi dagsins hefur það hækkað um 27% frá fyrsta viðskiptadegi fyrir rúmum mánuði síðan.

Bréf Haga voru þau einu sem hækkuðu í verði í Kauphöllinni í dag. Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Marel um 0,37% og enduðu þau í 135,5 krónum á hlut. Í nýlegu verðmati greiningar Íslandsbanka er mælt með kaupum á bréfunum miðað við að verð þeirra fari yfir 150 krónur á hlut.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,14% í dag í 15,2 milljóna króna viðskiptum. Vísitalan stendur í 954,24 stigum.