Gengi hlutabréfa Haga-samstæðunnar stendur nú í 37,35 krónum á hlut eftir 0,13% hækkun það sem af er degi. Gengið hefur aldrei verið hærra. Ekki eru mikil viðskipti á bak við gengishækkunina í dag en veltan með þau nemur aðeins fjórum milljónum króna.

Stutt er í að tvö ár séu liðin frá skráningu Haga á markað. Það var gert 16. desember árið 2011. Gengi hlutabréfa Haga var 13,5 krónur á hlut í útboði með bréfin í aðdraganda skráninga á markað í byrjun desember árið 2011. Í fyrstu viðskiptum með bréfin fór gengið í 15,5 krónur á hlut. Miðað við gengið nú hafa þeir sem keyptu hlutabréf Haga í útboðinu á sínum tíma fengið ágætis ávöxtun á fjárfestingu sína enda hefur gengi þeirra síðan þá hækkað um 176,7%.