Gengi hlutabréfa Haga hækkaði um 3,1% í Kauphöllinni í dag. Rétt rúmlega 190 milljóna króna viðskipti voru með hlutabréf félagsins á markaði. Gengi hlutabréfa Haga stendur nú í 39,85 krónum á hlut og hefur það aldrei verið hærra.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Vodafone um 2,15%, Icelandair Group um 1,33% og Eimskips um 1,13%. Þá hækkaði gengi bréfa Össurar um 0,87%, N1 um 0,8%, TM um 0,47% og VÍS um 0,37%.

Gengi tveggja félaga lækkaði í dag. Það var gengi bréfa Regins, sem fór niður um 0,63% og Marel sem lækkaði um 0,36%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,99% og endaði hún í 1.301 stigi. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam tæpum 2,5 milljörðum króna. Mest voru viðskipti með hlutabréf Icelandair Group eða fyrir tæpar 870 milljónir króna.