Gengi hlutabréfa Haga hefur hækkað um 2,25%. Það stendur í 40,9 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Hagar birtu uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í morgun. Þar kemur fram að hagnaður nam 800 milljónum króna samanborið við rétt rúmar 500 milljónir á þriðja ársfjórðungi fyrra árs. Þá jókst velta umfram verðbólgu. Uppgjörið var umfram væntingar, að því er fram kom í uppgjörstilkynningu.

Hlutabréf Haga voru skráð í Kauphöllina í desember árið 2011 og var það fyrsta félagið til að vera skráð á markað eftir hrun árið 2008. Í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar stóð gengi hlutabréfa Haga í 13,5 krónum á hlut. Þessu samkvæmt hefur gengi hlutabréfa Haga hækkað um 202%.