Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,42% í dag og stendur nú í 1.737,23 stigum og hefur hækkað um 1,56% frá áramótum. Heildarvelta á mörkuðum nam 6,5 milljörðum, þar af nam veltan á hlutabréfamarkaði tæplega 3 milljörðum og á skuldabréfamarkaði 3,5 milljörðum.

Gengi hlutabréfa Haga lækkaði mest í dag eða um 4,26% í 672 milljón króna viðskiptum og er verð á bréfum félagsins 39,35 krónur. Lækkunina má rekja til afkomutilkynningar sem félagið sendi frá sér í gærkvöldi, þar sem kom fram að aukin samkeppni myndi hafa áhrif á afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi. Einnig var vísað til þess að dregist hafi úr sölu félagsins í júní, eftir að Costco opnaði verslun sína í Kauptúni í Garðabæ. Markaðsvirði félagsins var 45,3 milljarðar króna í lok dags, miðað við 47,3 milljarða við lok viðskipta í gær. Því þurrkuðust um 2 milljarðar króna af markaðsvirði félagsins út á einum degi.

Önnur félög sem lækkuðu í viðskiptum dagsins voru til að mynda Sjóvá, sem lækkaði um 2,2% í 46,2 milljón króna viðskiptum. Einnig lækkaði gengi bréfa Skeljungs um 2,08% í 77,5 milljón króna viðskiptum. Sömuleiðis lækkaði gengi hlutabréfa Reita fasteignafélags um 1,77% í 137,7 milljón króna viðskiptum. VÍS lækkaði um 2% í 180,7 milljón króna viðskiptum.

Vísitölur GAMMA

Markaðsvísitala GAMMA lækkaði um 0,1% í dag í 6,2 milljarða viðskiptum. Hlutabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,4% í dag í 2,7 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði lítillega í dag í 3 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 0,7 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 2,2 milljarða viðskiptum.  Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa stóð í stað í dag í 0,5 milljarða viðskiptum.