Gengi allra hlutabréfa í Kauphöllinni hefur lækkað umtalsvert, en mest hefur gengi bréfa Haga fallið í verði. Stutt er síðan markaðurinn opnaði en samkvæmt upplýsingum frá Keldunni er velta með hlutabréf tæplega tveir milljarðar það sem af er dags.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,59%. Mest hefur gengi bréfa smásölufyrirtækisins Haga lækkað, eða um 6,21% í 852 milljónum króna. Þá hefur gengi bréfa Icelandair lækkað um 1,72% í 345 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Marel lækkar þá einnig um 2,56% í 200 milljóna viðskiptum.

Hagar samþykktu á ársfundi sínum á föstudag að arður til hluthafa sem nemur 1,7 krónu á hlut, fyrir tæpa tvo milljarða króna, sem er 56,7% af hagnaði rekstrarársins yrði greiddur út fyrir árið 2015. Í dag er arðleysisdagur Haga.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stafar lækkunin að öllum líkindum af því að Seðlabankinn kynnti nýtt stjórntæki til að „tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsinnstreymis,” en stjórntækið virkar á þann veg að Seðlabankinn getur stýrt því nánar hvernig fjármagn flæðir til landsins.

Athugasemd: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom ekki fram að í dag væri arðleysisdagur hjá Högum. Þetta hefur nú verið skýrt frekar og fyrirsögn breytt.