Gengi hlutabréfa Haga féll um 2,67% í rúmlega 5,2 milljarða króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Eins og fram kom á VB.is í morgun seldu þeir Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson, sem jafnframt er formaður stjórnar Haga, bróðurpartinn af hlutabréfaeign sinni í Högum fyrir 3,2 milljarða íslenskra króna. Af heildareignarhlut sínum seldur þeir 77 milljónir hluta en eiga eftir 18,7 milljónir. Markaðsverðmæti þess sem þeir eiga eftir nemur tæpum 800 milljónum króna.

Á sama tíma og gengi bréfa Hafa féll fór gengi bréfa Icelandair Group niður um 2,89%. Þá lækkaði gengi bréfa Eimskips um 1,01%, Marel um 0,86%, VÍS 0,85%, N1 um 0,79% og TM um 0,66%.

Aðeins gengi bréfa Össurar hækkaði á markaði í dag eða um 0,77%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,83% og endaði hún í 1.217 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar nam 5.682 milljónum króna.