Tekjur kínverska netrisans Alibaba námu 2,8 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi og jukust um 45% frá sama tímabili í fyrra. Er það mun meiri aukning en greiningaraðilar bjuggust við. BBC News greinir frá þessu.

Fjárhæðin jafngildir rúmum 370 milljörðum íslenskra króna. Samhliða uppgjörinu tilkynnti fyrirtækið einnig að Daniel Zhang, sem starfað hefur sem rekstrarstjóri fyrirtækisins, muni taka við stöðu framkvæmdastjóra af Jonathan Lu. Sá mun hins vegar starfa áfram í stjórn fyrirtækisins og gegna þar varaformennsku.

Í tilkynningu fyrirtækisins kom fram að notendum vefsíðunnar hefði fjölgað um 37% milli ára og eru þeir nú 350 milljónir talsins. Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkaði um 7,5% í kjölfarið.