Gengi hlutabréfa í Deutsche Bank hafa hækkað um 7% frá opnun markaða í morgun, en ástæðan er talin vera afsögn tveggja framkvæmdastjóra bankans sem tilkynnt var um í gær. Þetta kemur fram á vef BBC News .

Framkvæmdastjórar bankans, þeir Jürgen Fitschen og Anshu Jain, tilkynntu um afsögn sína í gær eftir að stjórn bankans hafði komið saman á neyðarfundi. Ástæða fundarins var að ræða stöðu bankans í kjölfar hneykslismála sem dunið hafa á bankanum að undanförnu, en nýlega þurfti bankinn að greiða 2,5 milljarða dala sekt fyrir vaxtahagræðingu.

Miðað við þessa hækkun á gengi bréfa bankans hafa markaðsaðilar tekið vel í afsögn þeirra félaga. John Cryan tekur við stöðu Anshu Jain, en Fitschen mun hins vegar ekki láta af störfum fyrr en í maí 2016 og verður Cryan þá einn framkvæmdastjóri.