Gengi hlutabréfa í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet hækkaði um rúmlega 13 pens í gær vegna orðróms um að FL Group myndi gera tilraun til að auka við hlut sinn í félaginu. Lokagengi bréfanna í gær var rúmlega 282 pens. Þetta kemur fram í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph.
FL Group á 13,1% hlut í easyJet.

Meiri velta var með bréf í easyJet í gær en vanalega og rúmlega 17 milljónir bréfa gengu kaupum og sölum en meðaltalið er um sex milljónir bréfa.
Miðlarar í Bretlandi segja að orðrómurinn hafi kviknað vegna frétta um að FL Group hafi samþykkt að kaupa norræna lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines fyrir um 15 milljarða íslenskra króna.

Miðlararnir tóku fram að vangaveltur um frekari kaup FL Group í easyJet skjóti upp kollinum reglulega en að félagið hafi sýnt og sannað með kaupunum á Sterling að það hafi fjármagn til fjárfestinga og sé ákveðið að vaxa með frekari yfirtökum.

Kaupþing banki og Landsbanki Íslands hafa sölutryggt 44 milljarða hlutabréfaútboð fyrir FL Group, sem verður að hluta til nýtt til að greiða fyrir Sterling. Ekki hefur komið fram í hvað félagið hyggst nýta afganginn.