Gengi bréfa í Icelandair lækkaði um 5,51% í 1.048 milljóna króna viðskiptum í Kauphöll Íslands í dag. Eins og oft áður er langmest veltan með bréf Icelandair af öllum félögunum í Kauphöllinni. Næst á eftir kemur Marel en veltan þar nemur 121 milljón og lækkar gengi bréfa um 0,81%. Minni velta er með bréf í öðrum félögum. Gengi allra bréfa lækkar nema gengi bréfa í N1 og fasteignafélaginu Reginn.

Ársreikningur Icelandair fyrir árið 2013 var birtur í gær. Þar kemur fram að hagnaður Icelandair fyrir skatta nam 71 milljón bandaríkjadala, eða 8,2 milljörðum króna, og jókst um 13,6 milljónir dala, eða tæplega 1,6 milljarð, á milli ára. Það jafngildir því að hagnaður hafi aukist um 24% á milli ára.