Gengi hlutabréfa Icelandair Group féll um 2,78% í veltu upp á 670,6 milljónir króna í Kauphöllinni í dag. Þetta voru mestu viðskipti dagsins. Gengi bréfa félagsins endaði í 11,2 krónum á hlut. Lækkunin kemur í kjölfar greiningar greiningardeildar Arion banka sem setur 10,6 króna verðmiða á gengi Icelandair Group.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 0,96%.

Þá hækkaði gengi bréfa Haga um 0,38%, bréf Marel fóru upp um 0,32%, gengi bréfa Vodafone hækkaði um 0,30%, Eimskips um 0,19% og Regins um 0,07%. Talsverð velta var jafnframt með hlutabréf Eimskips eða upp á rúmar 622 milljónir króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði engu að síður um 0,38% og endaði hún í 1.210,82 stigum. Heildarveltan nam um 1,6 milljörðum króna.