Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur fallið um 4,76% frá því viðskipti hófust á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag. Talsverð velta er með hlutabréfin og hefur hún numið 458 milljónum króna það sem af er dags. Gengi bréfa Icelandair Group stendur nú í 19 krónum á hlut sem eru svipaðar slóðir og það var á í enda janúar.

Icelandair Group hagnaðist um 71 milljón dala, jafnvirði 8,2 milljarða króna á síðasta ársfjórðungi samkvæmt uppgjöri fyrirtækisins sem birt var í gær. Þetta var 24% aukning á milli ára. Fram kom í uppgjörinu að stjórn Icelandair Group leggi til að hluthafar fái sem svari til 43 aura arð á hlut vegna afkomunnar í fyrra. Það jafngildir 2.150 milljónum króna.

Fyrir ári stóð gengi hlutabréfa Icelandair Group í 10,68 krónum á hlut. Áður en gengi hlutabréfanna tók að lækka stóð það í 19,95 krónum á hlut. Miðað við það hafði gengið hækkað um 86% á einu ári í gær.

VB Sjónvarp ræddi við Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group, í kjölfar uppgjörsfundar í dag.