Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur fallið um 2,54% í Kauphöllinni í dag. Ekki eru mikil viðskipti með hlutabréfin miðað við aðra daga en veltan nemur 72 milljónum króna. Gengi hlutabréfanna leitaði niður á við á sama tíma og samningafundi í kjaraviðræðum forsvarsmanna Icelandair og flugvirkja lauk án árangurs í gærkvöldi. Í kjölfarið lögðu flugvirkjar félagsins niður störf klukkan sex í morgun. Þeir munu ekki hefja störf fyrr en á morgun.

Næstum allt millilandaflug Icelandair liggur niðri vegna aðgerðanna og má ætla að 12.000 flugfarþegar finni fyrir þeim. Boðað hefur verið til nýs fundar klukkan tvö í dag. Ef ekki nást samningar fyrir fimmtudag þá hefst ótímabundið verkfall flugvirkja.