Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 2,46% í rúmlega 311 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta veltan á markaðnum. Gengi hlutabréfa félagsins endaði í 9,99 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra síðan gengi bréfa félagsins var á hraðri niðurleið eftir bankahrunið. Mikil viðskipti voru með hlutabréf Icelandair Group í síðasta mánuði eða upp á 7,6 milljarða króna.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Marel um 1,27%, Haga um 0,72% og fasteignafélagsins Regins um 0,46%. Næst mesta veltan var með hlutabréf Haga í dag eða upp á rúmar 288 milljónir króna.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Vodafone um 0,6% og Eimskips um 0,2%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% og endaði hún í rúmum 1.182 stigum. Heildarveltan með hlutabréf á Aðalmarkaði nam rúmum 730 milljónum króna.