Gengi  hlutabréfa Icelandair Group féll um 3,49% í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Það stóð í 17,2 krónum á hlut á föstudag en fór við upphaf viðskiptadagsins í dag niður í 16,6 krónur. Veltan með hlutabréf Icelandair Group nam 118 milljónum króna í byrjun dags.

Í gær sendu stjórnendur Icelandair Group afkomuaðvörun til Kauphallarinnar vegna verkfalls flugstjóra. Þar sagði að tap Icelandair gæti numið meira en 1,5-1,7 milljörðum króna, haldi verkfallið áfram .

Hagnaður Icelandair Group nam um 6,5 milljörðum króna í fyrra. Áætlað var að hann yrði svipaður í ár. Verkföll flugmanna og hugsanlega fleiri starfsmanna, geti haft veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðuna.