Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur nú um hádegisbil hækkað um 5,33% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni, en alls nemur veltan með bréfin 69 milljónum króna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá þá var síðasta rekstrarár flugfélagsins ansi þungt og nam tap félagsins 6,7 milljörðum króna . Gengi hlutabréfa félagsins hefur fallið nokkuð duglega í kjölfar uppgjörsins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að tapið endurspeglaði harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs. Engin af þessum ástæðum hafi komið markaðaðilum á óvart enda sömu áskoranir og önnur félög hafi glímt við að undanförnu. Til viðbótar nefndi Bogi að breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins sem og ójafnvægi í leiðarkerfi hefðu haft neikvæð áhrif á afkomuna.