Óhætt er að segja að dagurinn í Kauphöllinni hafi verið rauðleitur, en gengi bréfa 16 félaga af þeim 18 sem eru skráð í Kauphöllina lækkaði í viðskiptum dagsins.

Gengi hlutabréfa í Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 12,66% í 417 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun þá féll Icelandair frá þeim áformum að kaupa Wow air. Alls lækkaði markaðsvirði félagsins því um tæplega 6,8 milljarða króna í viðskiptum dagsins. Markaðsvirði félagsins er þó enn tæplega 9 milljörðum hærra en það var föstudaginn 2. nóvember síðastliðinn, sem var síðasti viðskiptadagur með bréfin áður en tilkynnt var mánudaginn 5. nóvember um fyrirhuguð kaup félagsins á Wow air og í kjölfar þess hækkaði markaðsvirði félagsins umtalsvert.

Gengi bréfa í Festi lækkaði einnig umtalsvert í viðskiptum dagsins eða um 9,91% í 805 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þá skilaði félagið inn uppgjöri 3. ársfjórðungs í gær.

Marel var eina félagið sem hækkaði gengi bréfa sinna í viðskiptum dagsins. Sú hækkun nam þó einungis 0,4% í 303 milljóna króna viðskiptum.