Gengi hlutabréfa Marel hefur lækkað um 1,95% í Kauphöllinni í dag. Það stendur nú í 100,5 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan undir lok desember árið 2010.

Á síðastliðnum fjórum árum hefur gengi bréfanna farið hæst í tæplega 161 krónu á hlut. Það var í byrjun maí árið 2012 og í enda febrúar á síðasta ári. Nokkuð hefur gengið á hjá Marel síðasta ári. Þar ber hæst þegar forstjóranum Theo Hoen var vikið til hliðar 1. nóvember árið 2013 og Árni Oddur Þórðarson, sem var stjórnarformaður Marel í krafti um 30% eignahlutar Eyris Invest í félaginu, settist í forstjórastólinn.

Eins og fram kom í uppgjöri Eyris Invest á dögunum hefur gengislækkun hlutabréfa Marel snert mjög við félaginu. Tap Eyris Invest nam 6,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og var það skrifað að stærstum hluta á gengisfall bréfa Marel.

Síðan í febrúar í fyrra hefur það lækkað nokkuð viðstöðulítið. Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur það fallið um rétt rúman fjórðung og um 22,9% frá áramótum.