Gengi hlutabréfa Marel féll um 3,2% í Kauphöllinni í dag. Rétt rúmlega 200 milljóna velta var á bak við gengisþróunina. Gengi hlutabréfa Marel stendur nú í 121 krónu á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan í desember árið 2011.

á sama tíma lækkaði gengi bréfa VÍS um 1,35%, TM um 1,33%, Vodafone um 1,07%, Icelandair Group um 0,63% og Eimskips um 0,22%.

Á móti hækkaði gengi bréfa Össurar um 1,16%, Regins um 0,65% og Haga-samstæðunnar um 0,14%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,31% og stendur hún í 1.151 stigi. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam tæpum 1,1 milljarði króna.