Heildarvelta á markaðnum í dag nam 6.872.810.684 krónum, viðskipti við skuldarbréf námu tæpum 5,3 milljörðum. Mesta velta var hjá Marel um rúmar 787 milljónir.

Hlutabréf Marel hækkuðu einnig mest í kauphöllinni í dag, eða um 6,73%. En eins og VB.is greindi frá gaf fyrirtækið út tilkynningu snemma í morgun um að afkoma þess á fyrsta ársfjórðungi yrði ofar væntingum. Hagnaður eftir skatt í fyrsta ársfjórðungi er áætlaður rúmlega 12 milljónir evra.

Mörg hlutabréf stóðu í stað í dag en hlutabréf Haga hækkuðu um 1,18%, HB Grandi um 0,53%, Icelandair Group um 0,47%,  Eimskip um 0,44% og loks hækkaði N1 um 0,38%.

Össur lækkaði mest í dag, eða um 2,51% og hlutabréf TM lækkuðu um 0,22%.

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,987% í dag og endaði í 1.372,75  stigum. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 4,71%.