Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,96% óvenjumiklum viðskiptum í dag og endaði í 1.375,28 stigum. Gengi bréfa N1 hækkaði mest allra, eða um 6,14% og námu viðskipti með bréf félagsins rétt tæpum milljarði króna. Þá hækkaði gengi bréfa TM um 2,55%, Haga um 1,86% og Regins um 1,74%. N1 og Reginn skiluðu ársreikningum í gær og þá var greint frá forstjóraskiptum hjá N1.

Gengi bréfa VÍS lækkaði um 0,85% í dag og Icelandair Group um 0,47%. Velta á hlutabréfamarkaði nam 3,4 milljörðum króna og voru mest viðskipti með bréf Marels eða fyrir tæpa 1,3 milljarða króna. Hækkaði gengi bréfanna um 1,36% í dag.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,6% í dag í 8,5 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,8% í 3,4 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 5,1 milljarða viðskiptum. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 0,2% í dag í 0,5 milljarða viðskiptum.