Gengi hlutabréfa N1 hefur hækkað um 4,36% í Kauphöllinni í 458 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi.

Félagið kynnti ársuppgjör sitt eftir lokun markaða í gær, en þar kom meðal annars fram að það hefði hagnast um 1,6 milljarða króna á árinu sem er aukning um tæpan milljarð milli ára. Þá jókst framlegð af vörusölu um 5,2%, en þróun olíuverðs hafði hins vegar neikvæð áhrif á afkomuna undir lok árs.

Þá tilkynnti félagið einnig í gær að Eggert Benedikt Guðmundsson hefði látið af störfum sem forstjóri þess en hann hefur gegnt stöðunni frá árinu 2012. Eggert Þór Kristófersson, núverandi fjármálastjóri, hefur verið ráðinn forstjóri í hans stað.