Gengi hlutabrefa finnska farsímaframleiðandans Nokia rauk upp um 40% í kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi í morgun eftir að greint var fra því í gærkvöldi að Microsoft ætli að kaupa farsímadeild fyrirtækisins. Gengi hlutabréfa Nokia stendur nú í 4,12 evrum á hlut og er það á svipuðum slóðum og í apríl í fyrra.

Enn eru þó nokkur skref eftir áður en af sameiningunni verður. Hluthafar Nokia eiga eftir að gefa græna ljósið á hana auk þess sem samkeppnisyfirvöld eiga eftir að heimila kaupin.

Kaup Microsoft á farsímadeild Nokia eru önnur stærstu fyrirtækjakaupin í sögu Microsoft. Kaupverðið nemur 7,2 milljörðum dala nú. Til samanburðar keypti Microsoft Skype fyrir 8,5 milljarða fyrir tveimur árum og var það dýrasta yfirtaka fyrirtækisins.