Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hækkaði um 2,97% í Kauphöllinni í dag. Ekki er mikil velta á bak við hækkunina, 4,1 milljón króna. Eins og fram kom fyrr í dag lýsti danski sjóðurinn William Demant Invest, helsti hluthafi Össurar, yfir vilja til að kaupa allt hlutabréf fyrirtækisins. Gengi hlutabréfa Össurar sem skráð eru á markaði í Kaupmannahöfn hækkaði um 5,49% í dag.

Af öðrum gangi á hlutabréfamarkaði má nefna að gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 1,41%, hlutabréf Haga um 0,8% og Marel um 0,65%. Mest var veltan með hlutabréf Marel, 88,5 milljónir króna. Til samanburðar nam heildarveltan í Kauphöllinni með hlutabréf tæpum 198 milljónum króna.

Engin lækkun varð á gengi hlutabréfa.

Úrvalsvísitalan tók við sér í hækkunarhrinunni og hækkaði um 1,07%. Hún stendur nú í 1.061 stigi.