Gengi bréfa Regins hefur hækkað um 2,13% það sem af er degi og er því ljóst að uppgjör fyrirtækisins fyrir árið 2012 hefur runnið ljúflega ofan í fjárfesta. Þegar þetta er ritað, eða um klukkan 14:15, er gengi bréfa fyrirtækisins 13,43 krónur á hlut. Skráningargengi félagsins í byrjun júlí í fyrra var 8,25 krónur á hlut og hafa bréfin því hækkað um 62,8% frá skráningu.

Hagnaður Regins hf. á síðasta ári nam 2.599,4 milljónum króna en var 1.311,1 milljónir króna árið 2011. Eignir Regins hækkuðu úr 29,9 milljörðum króna í 32,2 milljarða og eigð fé jókst úr 6,7 milljörðum króna í 11,1 milljarð. Skuldir lækkuðu þvi úr 23,3 milljörðum króna í 21,1 milljarð, en það er einkum vegna umtalsverðrar lækkunar á skammtímaskuldum. Langtímaskuldir jukust um 1,2 milljarð króna. Stjórn Regins leggur til að ekki verði greiddur arður í ár vegna reikningsársins 2012.