Gengi hlutabréfa hefur hækkað um 2,24% í Kauphöllinni í dag. Í gærkvöldi var greint frá því að forsvarsmenn félagsins hafi skrifað undir samkomulag á laugardag um kaup á Klasa fasteignafélagi. Kaupverðið nemur tæpum 8,3 milljörðum króna og verður greitt með reiðufé og hlutabréfum í Reginn.

Gangi kaupin í gegn munu hluthafar Klasa, félagið Sigla ehf, eignast um 9% hlut í Reginn ef af kaupum verður og verður það með stærstu hluthöfum Regins. Fram kom í tilkynningu um viðskiptin að ef af kaupum verður mun eignasafn Regins stækka um 15% og er áætlað að EBITDA Regins hækki um rúm 20% miðað við útgefa rekstrarspá fyrir næsta ár.

Nýtt hlutafé í Reginn sem sérstaklega þarf að gefa út vegna kaupanna miðast við fast gengi 13,63 krónur á hlut sem var lokagengi hlutabréfa Regins í Kauphöllinni á föstudag. Gengi hlutabréfa Regins stendur nú í 13,93 krónum á hlut. Ekki eru mikil viðskipti á bak við gengishækkunina en velta með hlutabréf félagsins nemur 33 milljónum króna.