Greiningardeild Íslandsbanka setur 14,2 króna verðmiða á hvern hlut í fasteignafélaginu Reginn í nýju verðmati á félaginu. Þetta er tæplega 18% hærra verð en í verðmati deildarinnar frá í október í fyrra.

Fram kemur í verðmati greiningar Íslandsbanka að helstu liðirnir sem hafi breyst frá í fyrra sé lækkun lánsfjárkostnaðar, eignfærð/nýtt tekjuskattsinneign, meira tap í fasteignaumsjón en spáð var og meiri tekjur í Smáralind.  Þá segir í verðmatinu að framlegð Regins mældri sem hlutfall rekstrarhagnaðar á móti leigutekjum nam 72,29% í fyrra. Í sjóðsflæðisáætlun í síðasta verðmati var notað 71,0% fyrir þetta sama hlutfall en það var gert af varfærnisástæðum.

Þá segir í verðmatinu að raunávöxtunarkrafa  fjárflæðis til félagsins sé metin á 6,4%.  Kostnaður við lánsfjármögnun er metin 4,21% og er þar tekið tillit til endurfjármögnunar á bæði Smáralind og Egilshöll sem tilkynnt var um í fyrra.

Innan sjóðsflæðismatsins eru ekki áhrif eigna í Ofanleiti 2 og tengdar fjárfestingar sem nýverið var tilkynnt um. Í verðmatinu segir að kaupin séu óljós, bæði hvað snerti kaupverðið, áætlaða fjárfestingarþörf vegna endurbóta og nýtingu þeirra eigna sem keyptar voru samhliða leigusamningi við Verkís og því ekki hægt að meta virði þeirra að svo stöddu.

Talsverð hækkun

Hlutabréf Regins voru skráð á markað í júlí í fyrra. Það hefur hækkað um 4,42% í viðskiptum upp á 164 milljónir króna í Kauphöllinni í dag. Það stendur nú í 13,69 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Gengið þarf að hækka um 3,7% til viðbótar til að ná upp í verðmatsgengi bréfanna.