Gengi hlutabréfa Sjóvár hefur lækkað um 0,63% í 14 milljóna króna veltu með bréfin í Kauphöllinni í dag. Gengi hlutabréfanna hefur ekki verið lægra síðan félagið var skráð á markað í apríl. Gengi hlutabréfa Sjóvár stendur nú í 12,55 krónum á hlut. Í útboði með hlutabréfin í aðdraganda skráningar var gengi bréfanna á bilinu 11,9 til 13,51 króna á hlut.

Fram kom í uppgjöri Sjóvár sem birt var í morgun að tap tryggingafélagsins á fyrsta ársfjórðungi nam 124 milljónum króna. Það var verulegur viðsnúningur á milli ára því á fyrsta ársfjórðungi ársins 2013 var 617 milljóna króna hagnaður af rekstri Sjóvár. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, sagði tapið skýrast af fjárfestingarstarfsemi og almennt slæmri ávöxtun á innlendum fjármálamarkaði.