Gengi hlutabréfa tryggingafélagsins VÍS hækkaði um 2,13% í Kauphöllinni í dag. Á eftir fylgdi gengi hlutabréfa TM, sem fór upp um 1,36% í dag. Þá hækkaði gengi bréfa Össurar um 1,09% og Haga um 0,88%.

Gengi bréfa VÍS fór reyndar hærra upp í dag eða um rúm 2,4%. VÍS skilaði uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung ársins á föstudag í síðustu viku. Vb.is sagði frá því í morgun að VÍS vinni að því að færa hluta fjáreigna í eignir sem að jafnaði gefa af sér hærri ávöxtun en ríkistryggð bréf. Af þeim sökum hafi hlutdeild hlutabréfa og annarra skráðra verðbréfa aukist í eignasafni VÍS á kostnað ríkisskuldabréfa.

Á móti lækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 1,26% og Marel um 1,07%. Á sama tíma fór gengi hlutabréfa Vodafone og Eimskips niður um 0,76% og Icelandair Group um 0,39%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,18% og stóð Úrvalsvísitalan í 1.151,08 stigum í lok dags.