Gengi hlutabréfa Vodafone féll um 12,1% í Kauphöllinni í dag. Velta með hlutabréfin nam 211 milljónum króna. Tyrkneskur tölvuþrjótur braust inn á tölvukerfi Vodafone um helgina og rændi upplýsingum um 77 þúsund viðskiptavini. Stjórnendur Vodafone gengust við því um helgina að fyrirtækið hafi geymt upplýsingar notenda mun lengur en það átti að gera. Þegar mest lét við upphaf viðskiptadagsins í Kauphöllinni féll gengi bréfa Vodafone um tæp 15%.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Marel um 1,48% og TM um 0,32%.

Gengi bréfa Icelandair Group hækkaði hins vegar um 0,9%, gengi bréfa Regins hækkaði um 0,63%, VÍS fór upp um 0,46% og Eimskips um 0,41%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,22% og endaði hún í 1.222 stigum. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam 372,7 milljónum króna. Það merkir að aðeins voru viðskipti með hlutabréf annarra félaga en Vodafone fyrir rétt rúma 160 milljónir króna.