Gengi hlutabréfa Vodafone hefur fallið um 2,55% í Kauphöllinni í dag. Velta með hlutabréfin nemur 99 milljónum króna. Fram kom í uppgjöri Vodafone sem birt var í gær að hagnaður fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins hafi numið 345 milljónum króna borið saman við 231 milljón á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 210 milljónum króna sem var þremur milljónum meira en árið á undan.

IFS Greining benti á það í afkomuspá sinni um Vodafone á dögunum að ef undan eru skilin forstjóraskipti hafi ekki verið stór tíðindi af Vodafone frá uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung. Þó sitji Samkeppniseftirlitið enn á ákvörðun um fyrirhugaðan samrekstur farsímakerfa með Nova, sem muni lækka fjárfestingarþörf og rekstrarkostnað vegna þess þáttar ef af verður. Félögin tilkynntu um þessa ætlan sína í nóvember í fyrra svo væntanlega verður tíðinda að vænta af þessu á næstunni en upphaflegt viðmið þeirra var að samstarfið hæfist á fyrri hluta þessa árs.

Á sama tíma hafi reyndar þau tíðindi helst borist af samkeppnisaðilum að 365 miðlar og Tal tilkynntu í júlí að undirrituð hefði verið viljayfirlýsing um sameiningu félaganna og 365 lýsti því yfir að félagið ætli sér inn á fjarskiptamarkaðinn af fullum krafti. Þessu til viðbótar hefur lögmaður sem fer fyrir fyrirhugaðri hópmálssókn gegn Vodafone vegna netinnbrots í nóvember í fyrra sagt að rúmlega 100 manns hafi skráð sig aðila að málinu. Verði farið fram á 300 þúsund króna í miskabætur handa hverjum að lágmarki. Vonast er til að málið fari af stað með haustinu.

VB Sjónvarp ræddi við Stefán Sigurðsson , forstjóra Vodafone, í dag.