Gengi hlutabréfa Vodafone hefur hækkað um 4,33% í veltu upp á 328 milljónir króna. Hagnaður félagsins nam 847 milljónum króna í fyrra sem var 112% meiri hagnaður en árið 2012. Rekstrarhagnaður nam 2.996 milljónum króna sem var8% aukning frá fyrra ári. Rekstrarhagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi einum nam 735 milljo´num króna sem var 22% aukning.

IFS Greining segir uppgjörið fyrir fjórða ársfjórðung vel í takt við væntingar þótt 201 milljóna króna nettóhagnaður hafi verið undir væntingum. Rekstrarhagnaður var þó aðeins yfir efri enda bilsins sem stjórnendur Vodafone gáfu út sem viðmið fyrir markaðsaðila.

Gengi hlutabréfa Vodafone stendur nú í 30,15 krónum á hlut og er það sambærilegt og í byrjun mánaðar. Hlutabréf Vodafone voru skráð á markað í desember árið 2012. Gengi bréfa félagsins stóð í kringum skráningu í rúmum 32 krónum á hlut og fór allt upp í tæpar 35 krónur þegar best lét í mars í fyrra. Það féll svo í maí í kjölfar uppgjörs félagsins á fyrsta fjórðungi síðasta árs og fór lægst niður í 24,7 krónur á hlut. Það var komið nálægt 30 krónum á nýjan leik í lok nóvember í fyrra þegar erlendur tölvuþrjótur braust inn í tölvukerfi fyrirtækisins og stal þar upplýsingum.

VB Sjónvarp ræddi við Ómar Svavarsson, forstjóra Vodafone, fyrr í dag í tengslum við uppgjör fyrirtækisins.