Gengi hlutabréfa Vodafone hækkaði um 1,91% í Kauphöllinni í dag. Þetta er fysta gengishækkunin á bréfum félagsins í vikunni í kjölfar þess að tyrkneskur tölvuþrjótur braust inn á vef fyrirtækisins og rændi þar tugþúsundum ódulkóðaðra upplýsinga. Gengi hlutabréfa Vodafone féll um 15% við upphaf viðskipta í Kauphöllinni á mánudag. Lækkunin gekk til baka um 3 prósentustig þegar yfir lauk. Gengi hlutabréfanna stendur nú í 26,65 krónum á hlut og er það á svipuðum slóðum og um miðjan október síðastliðinn. Ekki var mikil velta með hlutabréf félagsins. Hún nam 58 milljónum króna. Til samanburðar nam veltan 211 milljónum króna á mánudag.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 1,48%, gengi bréfa bæði TM og VÍS hækkaði um 1,45%, Eimskips um 1,01%, Haga um 0,93%, Regins um 0,56% og Marel um 0,37%.

Gengi hlutabréfa Össurar var það eina sem lækkaði í Kauphöllinni í dag en það fór niður um 1,12%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,96% og endaði hún í 12.36 stigum. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam tæpum 1,5 milljörðum króna. Mest var veltan með hlutabréf Icelandair Group eða upp á rúmar 610 milljónir króna.