Gengi hlutabréfa Vodafone hækkaði um 3,97% í rétt rúmlega 100 milljóna króna veltu með hlutabréf félagsins í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta gengishækkun dagsins. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 30,5 krónum á hlut og er það hærra en þegar tölvuþrjótur braust inn á vefsíðu fjarskiptafyrirtækisins undir lok nóvember í fyrra og stal þar ýmsum upplýsingum.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Marel um 0,75% og Haga um 0,12%.

Á móti lækkaði gengi bréfa Eimskips um 0,98%, Regins um 0,63%, bréf TM fóru niður um 0,62% og Icelandair Group um 0,52%. Þá lækkaði gengi bréfa VÍS um 0,47% og N1 um 0,27%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,16% og endaði hún í 1.284 stigum. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam tæpum 984 milljónum króna. Sem fyrr var mesta veltan með hlutabréf Icelandair Group eða upp á 206 milljónir króna.