Óhætt er að segja að markaðurinn danski hafi tekið fréttum morgunsins frá Danske Bank afar illa. Uppgjör bankans var töluvert undir væntingum auk þess sem stjórn bankans hyggst sækja nýtt hlutafé fyrir 20 milljarða danskra króna með hlutafjárútboði. Jafnframt verður enginn arður greiddur út fyrir síðasta ár fái stjórn bankans vilja sínum framgengt.

Það sem af er degi hefur gengi hlutabréfa bankans fallið um tæp 11% og hafa hluthafar því tapað sem nemur rúmum 10 milljörðum danska króna samanlagt. Markaðsvirði bankans er nú um 88 milljarðar danskra króna en var 98 milljarðar við opnun markaðarins í morgun. Danskir fjölmiðlar tala um slátrun en eins og business.dk , viðskiptavefur Berlingske Tidene, bendir á er ekki auðvelt að meta hvort það eru fréttir af hlutafjárútboði eða lélegu uppgjöri sem valda gengishruni bankans.