Danska C20-vísitalan hefur hækkað mikið í verði það sem af er degi og fór í fyrsta skipti í sögunni yfir 1.000 stig nú í morgun. Fylgja dönsk hlutabréf þannig eftir hækkun bréfa í Noregi sem jafnframt hafa aldrei mælst hærri. Børsen greinir frá.

Hæst fór vísitalan í 1.005 stig rétt eftir opnun markaða í morgun, en lækkaði svo lítillega og stendur nú í kringum 1.003 stig. Með hækkun dagsins hefur vísitalan hækkað um 24 prósent það sem af er ári, sem er meiri hækkun en varð á öllu síðasta ári en þá hækkaði hún um 17,6 prósent.

Á þessu ári hefur gengi bréfanna hækkað mun meira en væntingar stóðu til um, en Novo Nordisk hefur leitt hækkunina. Hefur fyrirtækið þannig hækkað um rúm 40 prósent frá áramótum.