Gengi hlutabréfa í deCODE genetics, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, hækkaði um 2,8% í gær á mörkuðum í Bandaríkjunum í fremur litlum viðskiptum. Í gær bárust fréttir þess efnis að bandarískt lögfræðifyrirtæki hygðist standa fyrir málssókn á hendur deCODE og stjórnendum þess þar sem ásakanir eru um að gefnar hafi verið út tilkynningar sem voru rangar eða misvísandi í þeim tilgangi að stuðla að hækkun á gengi félagsins.

Málssóknin kemur á hæla þess að endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hætti sem endurskoðandi deCODE en fréttir af því bárust fyrir um viku síðan. Gengi deCODE hefur gefið verulega eftir á árinu 2004. Gengi félagsins hefur lækkað um 24% á árinu og stendur gengið nú í 6,25 dollurum eins og kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.