Dollarinn stendur nú í 66,4 kr. í og hefur hann ekki verið jafn ódýr síðan á seinni hluta árs 1997 segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Bæði kemur hér til veikur dollari og sterk króna. Gengi dollara náði sögulegu lágmarki gagnvart evru í lok viðskipta í gær þegar ein evra kostaði 1,3058 dollara. Gengi dollara hefur lækkað töluvert síðustu daga eða frá því úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum lágu fyrir í upphafi nóvembermánaðar.

Í Morgunkorninu er bent á að mikill viðskiptahalli í Bandaríkjunum þrýstir á gengi dollara um þessar mundir og fátt bendir til þess að úr hallanum muni draga á næstunni. Hækkun evru á kostnað dollara kemur sér vel að jafnaði fyrir íslenska hagkerfið og stuðlar að auknu ytra jafnvægi þess þar sem utanríkisviðskipti landsins eru mest í evrum af einstökum myntum.