Hlutabréfagengi Eimskips hækkaði um 1,42% í viðskiptum dagsins, eftir að hafa lækkað um 4,1% í gær. Aðeins eitt félag hækkaði meira í dag, VÍS, sem hækkaði um 1,55%. Þá hækkaði gengi hlutabréfa í Sjóvá um 1,07%.

Hlutabréf Reita lækkuðu mest í viðskiptum dagsins, um 1,55%. Þá lækkaði hlutabréfagengi Eikar um 1,41% og gengi bréfa Icelandair um 1,37%.

Mest var veltan með bréf í Arion banka, en viðskipti með bréfin námu um 850 milljónum króna. Þá nam velta með bréf í Sjóvá um 819 milljónum og velta með bréf Kviku um 547 milljónum.

Heildarvelta á aðalmarkaði kauphallarinnar nam 3,9 milljörðum króna. Úrvalsvísitalan OMXI 10 hækkaði um 0,16% í viðskiptum dagsins og stendur fyrir vikið í 3.061,12 stigum.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði í dag nam 4,5 milljörðum króna, en mest var velta með tvo flokka óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, um milljarður með hvorn flokk, annars vegar á gjalddaga árið 2024 og hins vegar á gjalddaga árið 2031.